Setningarhátíð Lífshlaupsins 2017

01.02.2017

Mikil gleði ríkti í íþróttahúsi Holtaskóla í morgun þegar Lífshlaupið var ræst í tíunda sinn. Við þetta tækifæri var verkefninu Heilsueflandi samfélag ýtt úr vör í Reykjanesbæ.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Eðvarð Þór Eðvarðsson, skólastjóri Holtaskóla og Hafsteinn Pálsson formaður Almeningsíþróttasviðs
ÍSÍ ávörpuðu gesti og kepptu í skemmtilegri þraut í anda Skólahreystis sem Andrés Guðmundsson stýrði af sinni alkunnu snilld.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna með það að markmiði að hvetja landsmenn til að gera hreyfingu að föstum lið í lífi sínu, hvort sem er í frítímanum, í vinnunni, í skólanum eða við val á ferðamáta.

ÍSÍ hvetur alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á sínum vinnustað eða í sínum skóla.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, á lifshlaupid@isi.is eða í síma: 514-4000.