Verðlaunaheimsókn í Oddeyrarskóla og VMA

22.03.2017

Í síðustu viku fengu Oddeyrarskóli og Verkmenntaskólinn á Akureyri glæsilega erindreka frá ÍSÍ í innlit og komu þeir færandi hendi til starfsliðs og nemenda skólans. Megintilgangur hinnar formlegu heimsóknar var að afhenda Oddeyrarskóla og VMA verðlaunaplatta sína sem þeir höfðu unnið sér inn með frábærri frammistöðu í Lífshlaupinu en ekki auðnast að nálgast á verðlaunaafhendingunni. Hafandi öfluga skrifstofu ÍSÍ á Akureyri þá var tilvalið að virkja okkar vösku norðanmenn í verkið og færðist þeim það að sjálfsögðu vel úr hendi.

Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdarstjórn ÍSÍ sá um að afhenda forsvarsmönnum skólanna verðlaunaplattanna og Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri sá um myndasmíð. Þá nýttu þeir heimsóknina í að afhenda 1.bekk Oddeyrarskóla vinning sinn en nemendurnir voru svo lukkulegir að hafa verið dregnir út í skráningarleik Lífshlaupsins og hlutu kassa af kókómjólk í verðlaun í boði Mjólkursamsölunnar.

Við þökkum Oddeyrarskóla og VMA kærlega fyrir glæsilega þátttöku í Lífshlaupinu 2017 og einnig þökkum við Inga Þór og Viðari kærlega fyrir verðlaunaviðvikið.