Gott að hafa í huga í upphafi Lífshlaupsins

01.02.2018

Nú er Lífshlaupið 2018 hafið og því um að gera að fara yfir helstu reglur og atriði sem hafa þarf í huga.

Eitt af því varðar hvað telst til hreyfingar og við viljum vekja athygli á því að ekki er leyfilegt að skrá hefðbundin heimilisstörf s.s. heimilisþrif eða bílaþvott sem hreyfingu. Vissulega felst ákveðin hreyfing í þeim athöfnum en markmið verkefnisins er að fá almenning til að auka sína daglegu hreyfingu umfram hefðbundin verk.

Þá verður 5 daga reglan í gildi frá og með 12. febrúar og eftir þann tíma má eingöngu skrá fimm daga aftur í tímann og því er um að gera að skrá hreyfingu sína jafnt og þétt. Síðan er aðgengileg í öllum snjalltækjum og því ætti ekki að vera neitt vandamál að skrá inn jafnóðum.

Skráningarleikur er í gangi alla virka daga á meðan á verkefninu stendur og hafa allir sem eru skráðir til leiks möguleika á því að vera dregnir út. Dregið er í öllum keppnisflokkum hjá vinnustöðum og grunn- og framhaldsskólum. Vinningshafarnir eru tilkynntir í virkum dögum í þættinum Dagvaktin á Rás2, á facebook og hér á heimasíðu Lífshlaupsins.

Þá er einnig myndaleikur í gangi þar sem heppnir myndasmiðir eru dregnir út og einnig eru bestu myndirnar verðlaunaðar sérstaklega. Deilið með okkur myndum á Instagram og notið #lifshlaupid til að merkja myndirnar eða hlaðið inn myndum hér á heimasíðunni.

Við minnum á Facebook-síðu verkefnisins og að á heimasíðunni er hægt að deila myndum, frásögnum og myndböndum. Því væri virkilega gaman að heyra frá ykkur og sjá hverning stemmingin er á ykkar vinnustað eða skóla.