Norðlenskar verðlaunaafhendingar í Lífshlaupinu 2018
12.03.2018Norðlenskir þátttakendur stóðu sig með prýði í Lífshlaupinu 2018 enda öflugt afreksfólk við Eyjafjörðinn og í innsveitum. Því miður átti enginn þeirra heimangengt til að mæta á verðlaunaafhendinguna sunnan heiða til að taka við sínum viðurkenningum. En þar sem að ÍSÍ býr svo vel að eiga frábæra fulltrúa á Akureyri í formi Viðars Sigurjónssonar skrifstofustjóra og Inga Þórs Ágústssonar í framkvæmdastjórn ÍSÍ að þá gerðum við þá félagana út af örkinni í verðlaunaheimsóknir til vinningshafa.
Fyrsti áfangastaður var Framhaldsskólinn á Húsavík sem átti mjög gott mót sem skilaði sér með gullverðlaunum í sínum fjöldaflokki í framhaldsskólakeppninni. Viðar Sigurjónsson afhenti fulltrúa nemenda FSH gullskjöldinn góða og að því loknu var stillt upp í hópmynd af fríðum framhaldsskólanemum ásamt kennurunum Rakel Dögg Hafliðadóttur og Ingólfi Freyssyni.
Afreksbærinn Akureyri lét ekki sitt eftir liggja og næsti viðkomustaður var Oddeyrarskóli sem hafði átt hörkukeppni bæði í grunnskóla- og vinnustaðakeppninni. Niðurstaðan var sérlega glæsileg eða gullverðlaun fyrir nemendur og bronsverðlaun starfsmanna fyrir bæði hreyfidaga og hreyfimínútur. Fyrir þennan árangur veitti Akureyrarbær skólanum sérstakan bikar ásamt forláta Lífshlaupsköku og hér má sjá mynd af kökunni ásamt verðlaunagripunum öllum. Á síðari myndinni veitir Ingi Þór Ágústsson stoltum starfsmönnum Oddeyrarskóla verðlaunin og veitti Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri þeim formlega viðtöku.
Að því loknu lá leiðin í Síðuskóla sem lenti í 3.sæti í sínum fjöldaflokki í grunnskólakeppninni og hlaut því bronsskjöld fyrir sitt fína framlag. Ingi Þór steig aftur á stokk til að afhenda formanni nemendaráðs viðurkenninguna og til hliðar við þá félaga er Ólöf Inga Andréssdóttir skólastjóri.
Síðasta verðlaunaheimsóknin var í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit en nemendur þar höfðu staðið sig með prýði í grunnskólakeppninni og hlutu því bronsskjöld sem staðfestingu á flottri frammistöðu. Nemendur sátu prúðir og stilltir á meðan á afhendingu stóð og að henni lokinni stilltu Ingi Þór og Tryggvi Jóhann Heimisson íþróttakennari sér upp fyrir myndatöku en Tryggvi skipulagði þátttöku nemenda í Lífshlaupinu innan skólans.
Við þökkum öllum þátttakendum á Norðurlandi sérstaklega fyrir þeirra þátttöku og hvetjum þá til áframhaldandi afreka í næsta Lífshlaupi og öðrum hvatningarverkefnum ÍSÍ. Því í verðlaun er ekki eingöngu sæmdarheiti, hnallþórur og verðlaunaplattar heldur einnig opinber heimsókn frá höfðingjunum Viðari og Inga Þór og því er til mjög mikils að vinna.