Enn hægt að skrá sig til leiks

11.02.2019

Lífshlaupið 2019 fer vel af stað og enn er nægur tími til að skrá sig til leiks en hægt er að skrá sig alveg fram á síðasta dag. Frá og með 18. febrúar tekur svokölluð fimm daga regla gildi en þá verður einungis hægt að skrá hreyfingu fimm daga aftur í tímann, en ekki meira en það. Fram að því er hægt að skrá allt frá fyrsta degi (6.febrúar). 

Lífshlaupið er landskeppni í hreyfingu sem er ekki einungis hvatning fyrir einstaklinga til að taka sig á og byrja að bæta lífstíl með aukinni hreyfingu, heldur er það skemmtileg keppni milli vinnustaða og frábært tækifæri fyrir vinnustaði til þess að efla liðsandann/starfsandann á vinnustaðnum.

Vinnustaðir geta skráð eins mörg lið og þau vilja og efnt til keppni innan vinnustaðarins. Öll lið telja þó saman undir einum vinnustað í heildarkeppni Lífshlaupsins.

Á meðan Lífshlaupinu stendur er skráningarleikur í gangi en einn heppinn þátttakandi í vinnustaðakeppninni, einn í framhaldsskólakeppninni og einn bekkur í grunnskólakeppninni eru dregin út alla virka morgna í morgunþættinum Morgunverkin á Rás 2. 

Þar að auki er myndaleikur í gangi en á meðan á Lífshlaupinu stendur eru allir hvattir til að deila myndum af þátttöku sinni í gegnum heimasíðuna og einnig á Facebook eða Instagram með myllumerkinu #lifshlaupid. Allir myndasmiðir fara í lukkupott í myndaleik Lífshlaupsins og eiga möguleika á að vera dregnir út og vinna flotta vinninga. Þá verða einnig flottustu myndirnar verðlaunaðar sérstaklega í lok keppninnar og því er um að gera að taka myndarlega á því við myndasmíðina.