Það geta allir tekið þátt í Lífshlaupinu
26.01.2022
Í Lífshlaupinu eru allir landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta.
Til að þess að fá stig fyrir liðið sitt í Lífshlaupinu er það eina sem þarf að gera að hreyfa sig samtals í 30 mínútur yfir daginn (60 mínútur fyrir börn og unglinga). Það þarf ekki að vera ofurhlaupari, ofurhjólreiðakappi eða annarskonar afreksmaður til þess að taka þátt – Það þarf bara að hreyfa sig reglulega, helst daglega, en 100% þátttökuhlutfall fæst með því að hreyfa sig alla daga meðan átakið stendur yfir, 30 mín í senn (60 mín fyrir börn og unglinga). Dagurinn telur ekki nema skráðar séu 30 mín (60 mín börn)
Til þess að ganga vel í keppninni þarf vinnustaðurinn að vera með sem hæst hlutfall hreyfidaga. Til dæmis, ef 10 manns vinna á vinnustaðnum en 9 manns taka þátt, og þessir 9 manns hreyfa sig alla daga í 30 mínútur á dag þá er hlutfallið hjá þeim 90%. Það breytir því ekki þó einhver einn hreyfir sig í 5 klst á dag – staða þessara liðs í keppninni breytist ekkert. Afreksmaður og meðaljóni telja jafn mikið fyrir sitt lið.
Lífshlaupið snýst semsagt um að fá sem flesta með í lið og að fá sem flesta til að hreyfa sig sem oftast! Hvort sem þú ert byrjandi sem langar að fara að komast af stað í reglulega hreyfingu, eða nú þegar ofurhlaupari og vilt taka þátt fyrir þinn vinnustað og nota Lífshlaupið til að halda utan um þína hreyfingu – þá er Lífshlaupið fyrir þig!