Setning Lífshlaupsins 2023

01.02.2023

Það var mikil orka og gleði í höfuðstöðvum Advania í dag þegar Lífshlaupið var ræst í sextánda sinn með starfsfólki og góðum gestum.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ bauð gesti velkomna og opnaði setninguna með því að tala um mikilvægi þess að fólki fái tækifæri til að hreyfa sig. Alma Möller, landlæknir, minnti alla á hvað það sé mikilvægt að hreyfa sig allt lífsskeiðið. Hreyfing hjálpi til með svefninn, hugræna getu, bætingu stoðkerfis og bæti lífsgæði. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra talaði um mikilvægi þess að hlúa að okkur andlega og líkamlega og svona verkefni væri einmitt tólið sem kæmi okkur af stað. Skúli Helgason, formaður menningar- íþrótta og tómstundaráðs, talaði um hvað það væri mikil forvörn í íþróttum og heilbrigði væri lykilstefna borgarinnar. Sigrún Ósk Jakobsdóttir, mannauðsstjóri hjá Advania, talaði um hvað svona verkefni gerði fyrir starfsandann, heilsu starfsfólks og fyrirtækið. Advania hvetur starfsfólk sitt til hreyfingar og keppnin þjappar fólki saman.. Andri Stefánsson gaf Advania Lífshlaupsfánann og starfsmenn Advania tóku gesti með sér í plankakeppni til að koma keppnisskapinu af stað. Þess má geta sigurvegari hélt út í rúmlega 7 mínútur.

Gestir fengu veitingar frá Ávaxtabílnum og Mjólkursamsölunni.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa.þar eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embætti Landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.
Nánari upplýsingar um ráðleggingar um hreyfingu má finna á síðu Embætti Landlæknis.

Grunnskólakeppnin er fyrir 15 ára og yngriog stendur yfir í tvær vikur, 1. - 14. febrúar
Framhaldsskólakeppnin fyrir 16 ára og eldri og stendur yfir í tvær vikur, 1. - 14. febrúar
Vinnustaðakeppnin stendur yfir í þrjár vikur í febrúar, 1. - 21. febrúar

Skrá má alla hreyfingu ef hún nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.

Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.

Á heimasíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is má finna ýmislegt gagnlegt og það má einnig senda línu á lifshlaupid@isi.is ef ykkur vantar aðstoð



Mynd frá setningu - Arnaldur Halldórsson, Pix.is